Óflekkað mannorð

Í kvöld kl. 23:00 mun Árni Johnsen leiða söng þúsunda manna í brekkunni í Herjólfsdal. Allir sem eitt sinn hafa upplifað brekkusöng á Þjóðhátíð í Eyjum munu aldrei gleyma þeirri mögnuðu stemningu sem þar myndast. Einstök tilfinning (Can´t beet the feeling). Á meðan brekkusöngnum stendur elska allir náungann og lífið og enginn er í vafa um ágæti Árna Johnsen eða flekkun mannorðs hans. Eftir verslunarmannahelgi þarf mannorð hr. Johnsen hins vegar að skoðast rækilega og án hughrifa þjóðhátíðarstemningar. Hvað felst í „óflekkuðu mannorði“?


Í kvöld kl. 23:00 mun Árni Johnsen leiða söng þúsunda manna í brekkunni í Herjólfsdal. Allir sem eitt sinn hafa upplifað brekkusöng á Þjóðhátíð í Eyjum munu aldrei gleyma þeirri mögnuðu stemningu sem þar myndast. Einstök tilfinning (Can´t beet the feeling). Á meðan brekkusöngnum stendur elska allir náungann og lífið og enginn er í vafa um ágæti Árna Johnsen eða flekkun mannorðs hans. Eftir verslunarmannahelgi þarf mannorð hr. Johnsen hins vegar að skoðast rækilega og án hughrifa þjóðhátíðarstemningar. Hvað felst í „óflekkuðu mannorði“?

Rétt er að taka fram í upphafi að ekki er víst hvort að nauðsyn verði á að skoða þetta atriði í samhengi Árna Johnsen, þar sem Árni hefur ekki gefið út að hann muni bjóða sig fram í prófkjöri í Suðurkjördæmi vegna kosninga til Alþingis vorið 2007. Árni hefur þó sagt að hann útiloki ekki að bjóða sig fram aftur til þings, en að það sé ótímabært að gefa nokkuð upp um það hvort hann hyggist bjóða sig fram, ef af prófkjöri verður það er að segja. Eindregnir stuðningsmenn Árna hófu nú rétt fyrir verslunarmannahelgi að dreifa undirskriftalistum víða um Vestmannaeyjar til að hvetja hann til að fara fram. Að sögn stuðningsmannanna eru undirtektir almennt góðar, enda sé Árni sá þingmaður sem mest hafi gert fyrir Vestmannaeyjar og að bæjarbúar vilji sjá hann aftur sem þingmann. Góð tímasetning að sjálfsögðu, og von á enn betri árangri ef undirskriftarlistarnir verða látnir ganga um brekkuna í Herjólfsdal c.a. upp úr kl. 23 í kvöld.

En víkjum nú að því hvað felst lagalega í „óflekkuðu mannorði“. Víða virðist gæta nokkurs misskilnings varðandi það hvaða skilyrði menn þurfa að uppfylla til að teljast kjörgengir við kosningar til Alþingis. Er þetta ef til vill ekki óeðlilegt þar sem málið er ekki alls kostar einfalt og er meðal annars háð mati á ýmsum þáttum. Rétt er að draga saman og einfalda svo hægt sé að ná betri yfirsýn:

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands eru allir ríkisborgarar sem eiga kosningarétt kjörgengir til Alþingis, hafi þeir óflekkað mannorð.

Í lögum um kosningar til Alþingis eru þessi skilyrði frekar útlistuð. Í fyrsta lagi segir í 1. gr. laganna að til að eiga kosningarétt (ekki sömu skilyrði og um kjörgengi) þurfi einstaklingur að:
1. Vera íslenskur ríkisborgari
2. Hafa náð 18 ára aldri
3. Eiga lögheimili hér á landi

Samkvæmt 4. gr. laganna þarf kjörgengur einstaklingur að:
1. Eiga kosningarétt skv. 1. gr. laganna
2. Hafa óflekkað mannorð
3. Hæstaréttardómarar og Umboðsmaður Alþingis teljast þó ekki undir neinum kringumstæðum kjörgengir.

Til samanburðar má nefna að töluvert strangari skilyrði eru gerð til kjörgengis vegna kosninga til Alþingis heldur en vegna forsetakosninga, en til að bjóða sig fram til forseta Íslands þarf viðkomandi aðeins að hafa náð 35 ára aldri og vera íslenskur ríkisborgari.

Eins og sjá má eru flest skilyrði kjörgengis afar skýr og auðsótt að meta hvort einstaklingur uppfylli þau skilyrði. Aðra sögu er hins vegar að segja varðandi skilyrðið um óflekkað mannorð. Víkur þá sögunni að 5. gr. laga um kosningar til Alþingis sem segir að: „Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar.“ (feitletrun höfundar) Nánar segir svo að: „Dómur fyrir refsivert brot hefur ekki flekkun mannorðs í för með sér nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.“ Þetta þýðir að:

1. Þú þarft að fá uppreist æru þinnar ef þú hefur verið fundinn sekur um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti, nema
a. brotið sem þú framdir hafi verið framið fyrir 18 ára aldur, eða
b. refsingin sé innan við 4 mánuðir óskilorðsbundið.

2. Ef verkið þykir ekki svívirðilegt að almenninsáliti getur þú verið kjörgengur, þó svo að refsingin sé þyngri en 4 mánuðir óskilorðsbundið.

Hér eiga því menn sem hafa „lent“ í svipuðu og Árni Johnsen séns á því að fá metið hvort verkið hafi þótt svívirðilegt að almenningsáliti eða ekki. Þeir sem meta þetta atriði eru þeir sem semja kjörskrár (sveitarstjórnir), en ákvörðun þeirra er hægt að kæra til stjórnvalda og að lokum vísa til dómstóla. Ef verkið hefur þá verið talið svívirðilegt að almenningsáliti er möguleiki á að sækja um til dómsmálaráðherra að forseti veiti uppreist æru. Hér kemur að enn einu skilyrðinu, sem er einnig matskennt, en 2-5 ár þurfa að vera liðin frá því að refsin var tekin út til að hægt sé að veita uppreist æru. Í viðtali við Sigurð Líndal, fyrrverandi lagaprófessor, í kvöldfréttum RÚV 5. ágúst s.l. segist hann telja að það sé einmitt þetta atriði sem mögulega getur komið í veg fyrir að Árni Johnsen hljóti uppreist æru, þ.e. hvort nægilega langt sé liðið frá því að dómur féll og hann lauk við afplánun dómsins.

Til að draga saman það sem að ofan er sagt og heimfæra á aðstæður Árna Johnsen, þá má segja að sveitarstjórn hafi í upphafi mat á því hvort hann teljist kjörgengur. Teljist brot hans svívirðilegt að almenningsáliti getur Árni sótt um uppreist æru til forseta Íslands, enda er liðið á bilinu 2-5 ár hann lauk við afplánun dóms. Reyndar er ekki loku fyrir það skotið að ókjörgengur maður sé í framboði, en ef maður, vitandi um það að hann er ókjörgengur, býður sig fram til þingmennsku þá varðar það hann sektum. Það er á endanum Alþingi sem úrskurðar um kjörgengi þeirra sem kosnir eru, sbr. 46. gr. stjórnarskrárinnar.

Má til fróðleiks nefna að frá gildistöku almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og til ársins 1961 var skorið úr því í dómi refsimáls hverju sinni hvort brot skyldi hafa í för með sér missi kosningarréttar og kjörgengis. Var þannig ekki neinum vandkvæðum bundið fyrir semjendur kjörskrár að kanna hvort hlutaðeigandi hefði kosningarétt og kjörgengi eða ekki.

Af öðrum málum Árna Johnsen má nefna að tilkynnt hefur verið að nú sé hann kynnir á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í síðasta sinn, en Árni hefur verið kynnir á Þjóðhátíð síðustu þrjátíu árin, utan eins árs er hann dvaldi á Kvíabryggju. Hann mun þó áfram stjórna brekkusöngnum. Vangaveltur hafa verið um hver sé ástæða þessa, en aðstandendur Þjóðhátíðar þvertaka þó fyrir að nokkur tengsl séu milli atviks sem átti sér stað á sviðinu í fyrra á milli Árna og Hreims, söngvara í Landi og sonum, og þeirrar ákvörðunar að hann hættir núna.

Íslendingar eru fljótir að gleyma og aldrei að vita nema að almenningur (í það minnsta almenningur í Suðurkjördæmi, og allavega Eyjamenn) séu búnir að taka Árna í sátt og fyrirgefa allar syndir. En eins og að framan hefur verið rakið er það þó ekki þeirra að ákvarða hvort Árni megi taka sæti á Alþingi á næsta kjörtímabili, þó svo að undirskriftasafnanir helgarinnar muni gefa sterkar vísbendingar um vilja almennings í þá átt.

Heimildir:
Gunnar G. Schram, Stjórnskipunarréttur, Reykjavík 1999.
www.althingi.is
www.ruv.is – kvöldfréttir 5. ágúst 2006
www.visir.is

Latest posts by Sigrún Helga Jóhannsdóttir (see all)