Það er orðinn árlegur viðburður rétt fyrir verslunarmannahelgina að þjóðfélagið fari á hvolf vegna birtingar á launakjörum bankastjóranna í landinu. Laun þeirra hafa farið sífellt hækkandi og nema nú hátt á þriðja hundrað milljóna á ári hjá forstjóra KB banka. Þetta eru ótrúlegar tölur og að mati pistlhöfunar miklu hærri laun en eðlileg og sanngjörn geta talist. Það breytir því þó ekki að viðbrögð sumra stjórnmálamanna og forsvarsmanna verkalýðshreyfingarinnar eru mikið áhyggjuefni.
Að venju keppast stjórnmálamenn við lýsa forundran sinni á þessum tölum og verkalýðshreyfingin fussar og sveiar. Lausnin að mati þessara aðila er ávallt sú sama: hærri skattar eða einfaldlega boð og bönn. Sumum svíður það þegar ákveðnir aðilar hafa svona háar tekjur að ríkið geti ekki tekið miklu meira af þessum aðilum í formi skatta. Öðrum svíður sárt sá launamunur sem er milli þeirra hæst og lægst launuðu í landinu. Eins og kom fram í samtölum við forsvarsmenn verkalýðsfélaganna í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag þá er munurinn á hæstu og lægstu launum orðinn 183 faldur. Það má þó ekki gleyma því að maður sem fær 200 milljónir í árslaun greiðir yfir 70 milljónir til ríkisins í formi tekjuskatts, eða ríflega 500 sinnum meira en maður á lágmarkslaunum.
Burtséð frá því að launamunur sé líklega orðinn of hár þá leysa hugmyndir eins og lögbundinn hámarkslaun eða háir hátekjuskattar ekki þennan vanda. Það ber heldur ekki að fagna hugmyndum um að lífeyrissjóðirnir beyti sér af meira afli í þessum málum enda er þá verið að nota almannafé í pólitískum tilgangi undir stjórn forsvarsmanna verkalýðshreyfingarinnar. Með þeim hætti væru menn að taka sér aukið vald frá fjármagnseigendum, almennum launþegum, sem hefðu ekkert um málið að segja. Slíkar hugmyndir ber að varast.
Það hefur sýnt sig að hugmyndir um hátekjuskatta og hvað þá lögbindingu hámarkslauna eru ekki af hinu góða. Slíkt leiðir iðulega til þess að fjármunirnir leita annað með þeim afleiðingum að rauntekjur ríkissjóðs lækka frekar en hækka. En kannski skiptir það ekki höfuðmáli því að af viðbrögðum verkalýðsforystunnar að dæma þá er tilgangurinn að allir hafi sem jafnastar tekjur en ekki að allir hafi það sem best. Þetta er tvennt ólíkt og má t.a.m. ímynda sér þjóðfélag með fullkomnum jöfnuði þar sem allir hafa það skítt og sömuleiðis má ímynda sér þjóðfélag með miklum ójöfnuði en allir hafa það gott, bara misgott.
Verkalýðsforystan benti enn fremur á í Morgunblaðinu að það væri enginn það verðmætur að hann ætti skilið þetta há laun. Án þess að geta fullyrt að svo sé er kannski rétt að velta því aðeins fyrir sér. Það eru eflaust tugir, ef ekki hundruðir hæfra manna og kvenna sem geta starfað sem bankastjórar KB banka og það með stakri prýði. Það er líka ekki spurning að flestir þessara, ef ekki allir, væru til í að gera það fyrir 10-15% af launum forstjórans í dag eða um 25-30 milljónir á ári. Spurningin hlýtur því að vera sú hvort að núverandi forstjóri reki bankann með ríflega 200 milljóna króna meiri hagnaði en allir hinir gætu gert. Það er klárlega mat stjórnar KB banka, sem m.a. Gunnar Páll Pálsson formaður VR situr í, að svo sé því annars fengju þeir annan á lægri launum í starfið.
Til að stemma stigu við þessari ofurlaunaþróun þarf klárlega að reyna að auka samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Það er vissulega vandasamt verk, ef gerlegt, en líklega er það klárt mál að hærri skattar á fyrirtæki verða ekki til þess að auka þessa ábyrgð þeirra (nema menn skilgreini hugtakið þannig að með hærri skattprósentu komi aukin ábyrgð). Í þessu samhengi mætti þó skoða breytingu á bókhaldslegri meðferð kauprétta fyrirtækjamegin, þ.e. að fyrirtækjum verði skylt að bóka sem kostnað alla kauprétti sem eru nýttir undir markaðsgengi (enda stór hluti tekna bankastjóra í formi kauprétta). Sömuleiðis þarf að auka vægi hluthafafunda í að samþykkja og ákveða laun æðstu stjórnenda og í því samhengi gagnsæi launakjara gagnvart hluthöfum. Enn fremur mætti skoða skattalega hvetjandi launakerfi til að auka jöfnuð innan fyrirtækja, þar sem t.a.m. allir starfsmenn ættu kost á eingreiðslu árlega utan grunnlauna sem ákvörðuð væri sem ákveðin prósenta, upp að vissu marki, af heildarhagnaði fyrirtækisins fyrir alla starfsmenn. Slíka greiðslu mætti t.a.m. skattleggja eins og aðrar fjármagnstekjur þ.e. hún bæri 10% skatt. En þessi leið myndi klárlega jafna launamun hjá fyrirtækjum sem færu þessa leið.
Að lokum er rétt að minnast á að helsta áhyggjuefni þessarar þróunar að mati pistlahöfundar snýr að verðlagningu veittrar þjónustu hjá fjármálafyrirtækjum. Það læðist nefnilega að manni sá grunur að hún sé ríflega verðlögð og veita mætti almenningi í landinu ódýrari þjónustu en gert er í dag með hliðsjón af launum bankastarfsmanna og hagnaði vinnuveitenda þeirra.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008