Í gær var þess minnst í ýmsum fjölmiðlum að tíu ár eru liðin frá því að Ólafur Ragnar Grímsson tók við embætti forseta Íslands. Að loknum kosningum til Alþingis árið 1995, þar sem Ólafur Ragnar fór fyrir Alþýðubandalaginu með takmörkuðum árangri og litlum sóma, hefði fáum dottið í hug í að hann myndi rúmu ári síðar setjast í stól forseta. En skjótt skipast veður í lofti. Af þeim sem þátt tóku í kosningunum greiddu rúm 41% Ólafi atkvæði sitt en meirihluti atkvæða skiptist milli annarra frambjóðenda.
Ólafur hefur um margt komið á óvart sem forseti. Heilt yfir hefur háttsemi hans verið með talsvert frambærilegri hætti en áður var. Bæði ásýnd forsetans og orðbragð er öllu huggulegra en raunin var með formann Alþýðubandalagsins. Enda er forsetinn þjóðinni á allan hátt þóknanlegri en formaðurinn var.
Því hefur verið haldið fram – með réttu – að Ólafur Ragnar sé að mörgu leyti ólíkur fyrri forsetum lýðveldisins. Kemur þar einkum tvennt til. Annars vegar hefur hann sem forseti iðulega blandað sér í pólitísk deilumál með margvíslegum yfirlýsingum. Hins vegar hefur Ólafur Ragnar gert embætti forseta Íslands áberandi í íslensku samkvæmislífi og fært það nær því sem tíðkast um erlend fyrirmenni, að ekki sé minnnst á kóngafólk.
Um síðara atriðið er það að segja að allir forverar núverandi forseta gættu þess mjög að halda virðingu embættisins óskertri og að láta ekki einkamál sín hafa áhrif á embættið sem slíkt. Frá þessu hefur verið brugðið í tíð Ólafs Ragnars. Hér er auðvitað fyrst og fremst átt við það að forsetinn hefur stigið hrunadans með hinum nýju slúðurfréttamiðlum. Hámarki náði sá dans er hann datt af baki og axlarbrotnaði í boði DV. Útkall þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja forsetann var hins vegar ekki í boði DV, heldur skattgreiðenda.
Hvað hitt atriðið varðar eru áhöld um það hvort forsetinn, sem ábyrgðarlaus er af stjórnarathöfnum öllum, eigi að blanda sér í pólitíska umræðu. Sú hefð sem forverar Ólafs höfðu fylgt, þ.e. að koma fram sem samnefnarar þjóðarinnar allrar og hefja embættið yfir argaþras stjórnmálanna, var ágæt. Með afskiptum sínum af einstökum viðfangsefnum stjórnmálanna hefur núverandi forseti rofið þessa hefð og verður hann þá að sæta sömu gagnrýni, aðhaldi og umfjöllun og aðrir þeir sem ástunda stjórnmál mega gera. Ekki er víst að það sé til bóta að embætti forseta verði þannig sett á gapastokkinn.
Pólitísk afskipti forsetans náðu hámarki í júní árið 2004 þegar hann neitaði að skrifa undir svokölluð fjölmiðlalög sem Alþingi hafði samþykkt og send voru forseta til staðfestingar venju samkvæmt. Undirritaður var í hópi þeirra sem voru mjög ósáttir við þessa lagasetningu en sú ákvörðun Ólafs Ragnars að fara á svig við skýran vilja Alþingis var öllu alvarlegri. Rökstuðningur hans fyrir því að neita að skrifa undir varð ekki skilinn öðruvísi en svo að um pólitíska og persónulega ákvörðun hefði verið að ræða, að forsetinn hefði lagt sitt pólitíska og persónulega mat á að lögin séu ekki góð. Hann hafði skömmu áður, í svokölluðu Öryrkjamáli, réttilega bent á að það væri ekki forsetans að leggja mat á stjórnarskrárgildi laga. Því var ákvörðunin persónuleg og pólitísk.
Vissulega voru margir sem fögnuðu þessari ákvörðun forsetans, enda hafði mikið gengið á í fjölmiðlum út af þessari lagasetningu. Sérstaklega var furðulegt að fylgjast með stjórnarandstöðunni fagna ákaflega þegar forsetinn virti að vettugi vilja meirihluta Alþingis, en í umræðum um breytingar á stjórnarskránni veturinn á undan höfðu allir flokkar tekið undir þau sjónarmið að þingræðisreglan væri hornsteinn íslenskrar stjórnskipunar.
Í forsetakosningum í ágúst 2004 fékk Ólafur Ragnar 67,5% greiddra atkvæða, en að mati flestra stjórnmálaskýrenda voru aðrir frambjóðendur aldrei líklegir til að ná til sín fylgi að neinu marki. Einn af hverjum fimm, sem höfðu fyrir því að mæta á kjörstað, skiluðu auðum atkvæðaseðli, eða 27.627 kjósendur. Slíkar tölur hafa hvorki fyrr né síðar sést í lýðræðislegum kosningum hér á landi, og þótt víðar væri leitað. Þessi staðreynd verður eflaust eitt af því sem sagnfræðingar framtíðar munu staldra við þegar litið verður yfir forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021