Síðastliðinn áratug hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt fram góðan matseðil fyrir landann. Aðalréttirnir hafa verið að bæta afkomu ríkissjóðs, lækka skatta fyrir fólk og fyrirtæki, einkavæða og “afregla” (e. Deregulation). Þessir réttir hafa runnið vel ofan í landann sem hefur þakkað fyrir sig með að tryggja núverandi ríkisstjórn stjórnarsetu undanfarin þrjú kjörtímabil. En nú virðist sem flestir hafa étið nægju sína. Ekki er hægt að “tyggja” sömu tuggurnar endalaust. Það er því mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn komi með nýja og ferska rétti á matseðilinn fyrir næstu kosningar.
Í stjórnarsetu sjálfstæðismanna hafa margir málaflokkar verið teknir til endurskoðunar. Það eru þó tvö ráðuneyti sem ekki bera handbragð sjálfstæðisstefnunnar: Landbúnaðarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið. Þessi tvö ráðuneyti hafa verið í gíslingu Framsóknarflokksins sem hefur kosið “status quo” og ekki sýnt vilja til umbóta.
Það er orðið löngu tímabært að stjórnmálamenn með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar aflétti visnaðri framsóknarhönd af bændum landsins og taki landbúnaðarmálin til gagngerar endurskoðunar. Það er deginum ljósara að það kerfi hafta og niðurgreiðsla sem hefur viðgengist gagnast engum. Bændur eru með fátækari stéttum landsins og neytendur bera kostnaðinn í hærra vöruverði. Stjórnvöld bera mikla ábyrgð, það voru þau sem suðu saman kerfið á sínum tíma. Það er því í þeirra verkahring að breyta því. Afnema ber tolla, vörugjöld, niðurgreiðslur og tæknilegar viðskiptahindranir af hvaða tagi sem er. Hjálpa þarf bændum að búa sig undir nýtt samkeppnisumhverfi án miðstýringar og hafta. Vissulega mun þetta taka nokkurn tíma en mikilvægasta skrefið er að búa til heilsteypta stefnu fyrir komandi ár.
Í næstu kosningum er sóknarfæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn: Róttækar breytingar í landbúnaðarmálum.
Útgjöld til heilbrigðismála hafa vaxið undanfarna tvo áratugi. Þannig voru útgjöld til heilbrigðismála 6% af VLF árið 1980. Tuttugu árum seinna er hlutfallið um 10%. Samanborið við önnur OECD lönd er ljóst að Ísland er töluvert fyrir ofan meðaltal og stefnan virðist einungis liggja upp á við.
Um miklar fjárhæðir er að ræða. Á fjárlögum ársins 2005 er gert ráð fyrir að 120 milljarðar fari í rekstur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis eða um 40% af fjárlögum ársins. Til samanburðar má geta þess að rekstur utanríkisþjónustunnar er um 6,6 milljarðar.
Meðal vinstri manna hefur gjarnan komið fram að vandi heilbrigðiskerfisins grundvallast á því að of litlu fé sé varið til heilbrigðismála. Varla getur sú verið raunin þar sem fjárveitingar til heilbrigðismála hafa verið langt umfram hagvöxt og eru með þeim hæstu í OECD. Lausnin felst ekki í auknu fjármagni heldur breyttu rekstrarskipulagi!
Í heilbrigðiskerfinu þar sem ríkið sjálft er bæði kaupandi og veitandi þjónustunnar skapast dæmigert vandamál sem fylgir oft ríkisrekstri, þ.e. krafan um minni kostnað og gæði er óljós. Þar sem að sami aðili veitir þjónustuna, greiðir fyrir hana og hefur eftirlit með gæðum, myndast hvergi hvati í kerfinu til sparnaðar eða bættrar þjónustu. Á almennum markaði er þetta fremur einfalt, krafan um bætta rekstrarhætti kemur frá viðskiptavininum. Hann greiðir fyrir vöruna/þjónustuna og gerir þá sjálfsagða kröfu um að hann sé að fá gæðavöru án þess þó að greiða of hátt verð.
Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu leysir þennan vanda á skilvirkan hátt með því að aðskilja kaupanda og seljanda. Með aðskilnaði kaupanda og seljanda í heilbrigðisþjónustu, þar sem ríkið er kaupandi en aðrir aðilar eru seljendur og veitendur þjónustu, hafa stjórnvöld betra tæki í höndunum til skilvirkara eftirlits með kostnaði og gæðum þjónustunnar. Þannig skilgreinir ríkið ennþá gæði en leyfir einkaaðilum að leita hagkvæmustu leiða til að veita hana.
Mikill ótti skapast gjarnan þegar minnst er á einkarekstur í sambandi við heilbrigðisþjónustu. Halda margir að það feli í sér kerfi að bandarískri fyrirmynd þar sem hinir efnameiri “borgi sig fram fyrir röðina”. Það er ekki rétt því markmiðið með auknum einkarekstri er bætt þjónusta og aðgengi, aukin samkeppni og betri nýting fjármuna sem varið er til embættisins.
Nú þegar eru margir þættir heilbrigðisþjónustunnar í einkarekstri. Til að mynda hjúkrunarheimili, læknastöðvar, læknavakt, lyfjabúðir og sjúkraþjálfun. Afar vel hefur tekist til og þjónustan batnað á meðan kostnaður hefur lækkað.
Það er mikilvægt að landbúnaðar- og heilbrigðismál verði hluti af aðalréttunum á matseðli Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu kosningar. Báðir þessir málaflokkar kalla á endurbætur og löngu tímabært að bjóða upp á nýja og betri rétti. Hver vill borða það sama í 12 ár?
- Á diskinn minn - 31. júlí 2006
- Frjáls för verkafólks - 10. maí 2006
- Kapítalismi og fátækt - 11. febrúar 2006