Svo virðist sem flestir Reykvíkingar séu sammála um að halda Strætó gangandi. Það þýðir þó ekki að meirihluti borgarbúa velji gulu vagnana sem fyrsta valkost til að komast ferða sinna því að svo virðist sem sífellt færri notfæri sér leiðarkerfið. Þó að ætlunin sé ekki að ræða ástæður þeirrar þróunar, má ætla að hægt að sé að færa hana á reikning aukinnar velmegunar og aukinnar einkabílaeignar borgarbúa.
Strætó bs er í eigu sveitarfélaganna sjö í Reykjavík. Um tíma var hægt að reka fyrirtækið að miklu leyti með fargjöldum, en síðustu ár hafa þau einungis dekkað um 40% rekstrarkostnaðar. Gerir stjórn Reykjavíkurborgar, sem á um 60% í fyrirtækinu, ráð fyrir að borga rúman milljarð til rekstrarins á þessu ári, sem eru um 10 þúsund krónur á hvern borgarbúa.
Þó að íbúum á höfuðborgarsvæðinu hafi fjölgað svo um muni síðustu 30 árin hefur farþegum fækkað um helming á tímabilinu. Því kemur ekki á óvart að reksturinn verði sífellt erfiðari fyrir stjórn Strætó bs, sem greip nýlega til aðhaldsaðgerða sem fólu í sér að skera niður leiðakerfi vagnanna í tilraun sinni til að snúa 360 milljóna króna hallarekstri í rétta átt.
Vandamál Strætó eru ekki ný af nálinni og hefur ýmislegt verið reynt til að rétta reksturinn af. Skemmst er að minnast gjörbreytingu á leiðakerfinu á síðasta ári, sem féllu í misgóðan jarðveg hjá farþegum.
Eins og áður sagði er líklegt að flestir borgarbúar vilji eiga þessi kost að taka Strætó og mikil eftirsjá yrði í því að gulu vagnarnir hyrfu alfarið af götum borgarinnar. Einnig má færa rök fyrir því að hópur fólks reiði sig töluvert á þessa þjónustu og hafi ekki úr mörgum öðrum valkostum að velja. Þar að auki mættum við öll vera meðvitaðri um mengunina sem fylgir aukinni notkun einkabílsins. Því eru ágætis rök fyrir því að halda vögnunum gangandi.
En til að halda rekstrinum áfram eru nokkrar grundvallarspurningar sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þurfa að spyrja sig. Fyrir hvern er þessi þjónusta, hversu miklu þjónustustigi viljum við halda uppi og hversu mikið erum við tilbúin til að borga fyrir það?
Ef við gefum okkur að það sé fullreynt að halda úti núverandi kerfi án töluverðra styrkja er kannski alveg eins gott að sætta sig við að Strætó er samfélagsþjónusta rétt eins og heilbrigðis- og menntakerfið og að reksturinn muni aldrei geta staðið undir sér.
Vissulega felur það í sér nokkra uppgjöf að sætta sig við að ekki sé hægt að höfða til samfélags- og umhverfisvitundar og hvetja þannig fólk til að taka Strætó. En núverandi skipulag fyrirtækisins býður ekki upp á marga kosti. Það væri ekki nema fyrir algjöra uppstokkun í rekstrinum og töluverða áhættu sem nokkur von væri um bjartari tíma.
Væri t.d. hægt að taka í notkun smærri bifreiðir og spara þannig rekstrarkostnað? Væri hægt að hafa ókeypis í strætó í ákveðinn tíma til að hvetja fólk til að nýta sér vagnana? Eru til aðrar leiðir til að sinna þessum hópi fólks sem hefur ekki aðra kosti og leggja hið hefðbundna leiðarkerfi að mestu niður, svo sem með niðurgreiddum leigubílum? Er hægt að leggja meiri áherslu á forgang strætisvagna í umferðinni og stytta þannig ferðatíma farþega?
Rót vandamála Strætó liggur í dreifðri byggð í Reykjavík og sú staðreynd að borgin er byggð upp með því sjónarmiði að fólk keyri sína eigin bíla. Mjög erfitt er fyrir fólk sem býr í úthverfum borgarinnar, ekki síst nýju hverfunum, að komast af án þess að eiga bíl. Það er því engin furða að stjórn Strætó bs ákvað á dögunum að leggja niður stofnleið S5 sem gengur frá Árbæ niður í miðbæ.
Ef við viljum halda áfram að eiga þess kost að geta tekið strætó verðum við að sætta okkur við að ekki sé hægt halda úti þéttu leiðarkerfi og núverandi borgarskipulagi nema með miklum tilkostnaði. Ef við erum ekki tilbúin að greiða þann kostnað verðum við að líta til frumlegri lausna en að breyta leiðarkerfinu eða hreinlega leggja fyrirtækið niður.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021