Erfitt er að henda reiður á hvað nákvæmlega hrindir af stað þeirri atburðarás sem er að eiga sér stað í Mið-Austurlöndum í dag enda mismunandi hliðar á afar flóknu máli þar sem spenna kraumar sífellt undir yfirborðinu. En ljóst er að spennan á svæðinu fer stigvaxandi með ófyrirséðum afleiðingum.
Út frá fréttaflutningi af málinu virðist sem kröfur um fangaskipti hafi verið ástæðan fyrir gíslatöku palestínskra vígahópa á ísraelskum hermanni 25. júní síðastliðinn. Gíslatökumennirnir kröfðust þess að palestínskum konum og börnum yrði sleppt úr ísraelskum fangelsum gegn því að afhenda gíslinn. Ísraelsk stjórnvöld þverneita að semja við hryðjuverkamenn og ákveða að bregðast við af fullri hörku með hörðum árásum og handtökum á palestínskum ráðamönnum. Ísrael gerir palestínsk stjórnvöld, þar sem Hamas-samtökin fara með stjórn, ábyrg fyrir gíslatökunni og gefur út að árásum verði haldið áfram þangað til að gíslinum hefur verið sleppt skilyrðislaust.
Svo gerist það á miðvikudaginn í seinustu viku að Hizbollah-hreyfingin í Líbanon fer yfir landamærin til Ísrael og tekur tvo ísraelska hermenn sem gísla. Ísrael hefur árásir á Líbanon og leiðtogi Hizbollah- hreyfingarinnar, Hassan Nasrallah, lýsir yfir stríði gegn Ísrael. Ísraelsk stjórnvöld hafa lýst yfir að þau muni ekki hætta árásum sínum fyrr en Hizbollah- hreyfingin láti gíslana tvo lausa og láti af eldflaugaárásum yfir landamærin. Hér gera Ísraelar stjórnvöld einnig ábyrg.
Ísrael hefur verið harðlega gagnrýnt af ríkjum, alþjóðastofnunum og samtökum fyrir harkaleg viðbrögð sín við gíslatökunum og þykir mörgum sem svo að Ísrael sé hér að gera aðila ábyrga sem hafa enga stjórn á ástandinu. Fram kom í fjölmiðlum að einn af palestínsku hópunum þremur sem lýstu yfir ábyrgð á gíslatökunni hafi verið tengdur Hamas-samtökunum. En því hefur einnig verið haldið fram að enginn hópanna hafði í raun tengsl við Hamas-samtökin og því ósanngjarnt af Ísraelsstjórn að gera Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, og Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínu, ábyrga fyrir því að gíslinum verði skilað aftur þar sem þeir hafi engu um það að ráða. Hvort að það sé raunin er ómögulegt að segja. En það er mögulegt að gíslatökumennirnir hafi engan áhuga á friðsamlegri lausn í þessari deilu. Í Palestínu eru herskáir hópar í sömu stöðu og Hamas-samtökin voru fyrir nokkrum árum. Þeir telja sig græða á ofbeldi þar sem árásir Ísraela muni grafa undan lögmæti palestínskra stjórnvalda með vaxandi óánægju almennings.
Og hvað Hizbollah-hreyfingunni viðvíkur þá er ljóst að líbönsk stjórnvöld hafa ekki stjórn yfir henni, þó að hreyfingin skipi þar mikilvægt hlutverk í stjórnmálum. Raunar hafa líbönsk stjórnvöld sakað Sýrland um að halda Líbanon í gíslingu þar sem náið samband er á milli stjórnvalda í Sýrlandi og Hizbollah-hreyfingarinnar. Íran styður hreyfinguna sömuleiðis.
Ísrael hefur tekið til þess ráðs að segja íbúum í Suður-Líbanon að yfirgefa heimili sín vegna yfirvofandi árása. Er vonast til þess að mikill fjöldi flóttamanna muni skapa þrýsting frá almenningi á Hizbollah-hreyfinguna til að fara að vilja Ísraela.
Ísrael hefur lengi haft þá stefnu að hefna harðlega fyrir allar árásir til að hvetja stjórnvöld ríkja í kring til að hafa hemil á hryðjuverkahópum innan sinna ríkja vilji þau komast hjá hefndaraðgerðum Ísraels. Í því ljósi er eðlilegt að þau lýsi stjórnvöld í Palestínu og Líbanon ábyrg fyrir gíslatökunum og árásunum, hversu sanngjarnt sem það kann að vera.
Bandaríkjamenn beittu í seinustu viku neitunarvaldi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að stöðva samþykkt ályktunar þar sem þess var krafist að Ísraelar hættu árásum sínum á Gaza-svæðinu og í gær fjallaði Öryggisráðið ekki um deiluna á fundi sínum vegna mótmæla Bandaríkjanna við því að hvikað yrði frá fyrirfram ákveðinni dagskrá. Eldflaugatilraunir Norður-Kóreu voru því umræðuefnið í stað stigvaxandi átaka við landamæri Ísraels.
En seinna um daginn náðu leiðtogar G8 ríkjanna, sem funda þessa dagana, að merja fram sameiginlega yfirlýsingu þar sem þess var krafist að íslamskir öfgahópar létu af eldflaugaárásum og slepptu hinum ísraelsku gíslum sínum. Einnig var þess krafist að Ísrael hætti hernaðaraðgerðum sínum og sleppi palestínskum ráðamönnum úr fangelsi.
Bandaríkjaforseti varði þó rétt Ísraels sem fullvalda ríkis til að svara hryðjuverkaárásum í viðtölum við fréttamenn í gær.
Lausn deilunnar virðist ekki í sjónmáli eins og staðan er í dag. Ísraelsk stjórnvöld þverneita að semja við hryðjuverkamenn og gíslunum verður ekki skilað nema í skiptum fyrir fanga að sögn hópanna sem hafa þá í haldi. Hizbollah-hreyfingin hefur lýst yfir að hún heyji stríð fyrir alla íslamista og kallar eftir stuðningi þeirra.
Ísraelsmenn saka Íran og Sýrland um að sjá Hizbollah-hreyfingunni fyrir vopnum og hugsanlega, ef að ekki næst að lægja öldurnar, gæti komið til þess að Ísraelsher réðist inn í þessi ríki. Sýrland er hvorki burðugt né mjög líklegt til að bjóða Ísrael birginn sjálft að einhverju marki en öðru gegnir um Íran. Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, hefur margsinnis lýst yfir andúð sinni á Ísrael og þvertekur til dæmis fyrir að helförin hafi átt sér stað. Ahmadinejad hefur lýst yfir að ráðist Ísrael inn í Sýrland verði það túlkað sem árás á allan Arabaheiminn.
Alþjóðasamfélagið hefur ekki náð að bregðast við þessu ástandi enn sem komið er. Fjöldi manns hefur þegar fallið í átökunum og ófyrirséð hversu víðtæk þau verða eða hversu lengi þau munu standa yfir.
- Vinnum upp mannfagnaði - 11. maí 2021
- Sameiginlegir hagsmunir - 6. apríl 2021
- Draumaverksmiðju-kryddið - 9. mars 2021