Þegar auglýsingar frá nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum fóru að birtast í fjölmiðlum var mér mjög brugðið. Þar kom fram að einungis 28% sveitastjórnamanna á Íslandi eru konur. Það er engin furða, hugsaði ég, að þær séu óánægðar með sinn hlut og ef til vill er fullyrðingin um að alltaf eigi að velja hæfasta einstaklinginn óháð kynferði einfaldlega röng. Er tími fléttulista og kynjakvóta runninn upp, tími sértækra aðgerða fyrir ákveðna þjóðfélagshópa?
Það bætti ekki úr skák að nýlega hafði enn ein auglýsingin birst þar sem fjallað var um það hversu fáar konur leggja stund á verkfræði í Háskólanum. Sú tala er skammarleg og vonandi mun átak um aukna þátttöku þeirra í þessu karlavígi skila tilætluðum árangri. Ég vona líka að dögum þar sem dætur eru teknar með í vinnuna eigi eftir að fjölga, enda er það vænlegasta leiðin til að stuðla að jafnrétti kynjanna, að skilja strákinn eftir heima í tölvuleik á meðan að stelpan fer með foreldrunum á skrifstofuna.
Þessar aðgerðir og fleiri eiga að stuðla að því að ungir menn líta á konur sem jafningja sína, sem einstaklinga sem ekki þarf að taka sérstakt tillit til, sem vini og starfsfélaga eða hæfa yfirmenn. En gera þær það?
Aðgerðir sem þessar eru til þess fallnar að fordómar gagnvart konum aukast í þjóðfélaginu hjá þeim hópi fólks sem hingað til hefur verið blessunarlega laust við þá. Ungir menn og ungar konur sem trúa á einstaklinginn og hæfileika óháð kynferði þurfa að þola það að vera sökuð um karlrembu ef þau gangast ekki við fáránlegustu hugmyndum um aukið jafnrétti. Það fylgir til dæmis sjaldnast sögunni um fáar konur í verkfræði að þær eru fjölmennari í öllum öðrum deildum Háskólans og reyndar eru konur ríflega 60% háskólanema.
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, hefur tekið saman tölur um hlut kvenna í sveitastjórnum á Íslandi. Niðurstöður hans eru um margt merkilegar, einkum fyrir þær sakir að þær sýna á mjög skýran hátt hvers vegna hlutur kvenna virðist svo rýr. Þegar tölur fyrir höfuðborgarsvæði eru skoðaðar kemur í ljós að um það bil 45% sveitastjórnarmanna eru konur. Á stöðum með færri en 1000 íbúa eru hins vegar aðeins um 24% konur. Á höfuðborgarsvæðinu búa tveir þriðju hlutar landsmanna en þeir velja aðeins lítinn hluta sveitastjórnarmanna. Á landsbyggðinni býr einn þriðji hluti landsmanna sem velur mun fleiri einstaklinga í sveitastjórnir. Þetta skekkir heildartöluna og kemur í veg fyrir að jafnréttisátakinu sé beint að réttum stöðum
Sértækar aðgerðir eru slæmar. Ég gæti ekki hugsað mér að fá starf fyrir það eitt að vera af ákveðnu kyni. Flestar ungar konur sem ég þekki eru sömu skoðunar enda eru þær vanar því að á þær sé litið sem einstaklinga og sem jafningja, en ekki hóp sem þarf á aðstoð að halda. Það er löngu orðið tímabært að ungu fólki sé ekki refsað fyrir syndir fyrri kynslóða. Einbeitum okkur að því að bæta það sem nauðsynlegt er að bæta og aukum virðingu fyrir einstaklingum óháð kynferði, litarhætti, kynhneigð eða hverju því sem hingað til hefur dregið okkur í dilka.
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005